Icelandair flutti alls 347 þúsund farþega í nóvember sem er aukning um 15% milli ára. Vöxturinn var mikill á markaðnum frá Íslandi, þar sem farþegafjöldi jókst um 25% milli ára, og á tengimarkaðinum um Íslandi þar sem aukningin var 18%. Í mánuðinum voru 31% farþega á leið til Íslands, 20% frá Íslandi, 42% voru tengifarþegar og 6% ferðuðust innanlands.
Sætanýting nam 83,5% og stundvísi var framúrskarandi, 88,8%, og jókst um 4,1 prósentustig samanborið við síðasta ár. Samkvæmt Cirium Analytics var Icelandair stundvísasta flugfélagið í Evrópu í nóvember, en þetta er í fimmta skipti sem félagið hlýtur þessa viðurkenningu á árinu 2025. Það sem af er ári hafa 4,7 milljónir farþega flogið með Icelandair, 8% fleiri en á sama tímabili í fyrra.
Seldum blokktímar í leiguflugsstarfsemi félagsins fækkaði um 3% á milli ára. Fraktflutningar, mældir í tonnkílómetrum, drógust saman um 10% sem skýrist af minni fiskútflutningi en á sama tíma á síðasta ári. Kolefnislosun á hvern tonnkílómetra dróst saman um 1%, vegna hærra hlutfalls eyðslugrennri flugvéla í flotanum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Nýliðinn nóvember var sá stærsti í sögu Icelandair sem endurspeglar áherslu okkar á að draga úr árstíðasveiflu og byggja upp eftirspurn utan háannatíma. Við erum sérstaklega ánægð með að fjölgun farþega var umtalsvert meiri en aukning framboðs, sem skilaði met sætanýtingu í nóvember. Þar að auki var stundvísi framúrskarandi en við vorum stundvísasta félagið í Evrópu í fimmta sinn á þessu ári. Þessar tölur eru til marks um styrk og áreiðanleika leiðakerfisins okkar og frábæra vinnu starfsfólks.“